Skip to main content

HVAÐ ER «ÉG VEIT»?

„Ég veit“ er námsefni fyrir leik- og grunnskóla sem leggur áherslu á fræðslu um einelti, ofbeldi og kynferðisbrot. Efnið er flokkað eftir viðfangsefnum og um er að ræða teiknimyndir og tillögur að verkefnum sem skapa grunn fyrirvangaveltur og umræður. Um er að ræða viðkvæm málefni og krefst þess því að vera í höndum reynslumikilla kennara eða annarra sérfræðinga innan skólasamfélagsins.

Námsefnið í „Ég veit“ er sniðið að aðalnámskrám leik- og  grunnskóla og hentar vel til vinnu í náttúru- og samfélagsgreinum, sem og í tengslum við öruggt leikskóla- og kennsluumhverfi.

„Ég veit“ var þróað af Salaby í Noregi að beiðni barna- og fjölskyldumálaráðuneytisins í samráði við heilbrigðisráðuneytið og menntamálaráðuneytið þar í landi. Salaby hefur m.a. þróað námsefnisvef sem býður upp á kennsluefni fyrir vinnu í öllum greinum á leik- og grunnskólastigi og öllum námsgreinum. Salaby hefur víðtæka reynslu af þróun námsefnis fyrir börn í samvinnu við þriðja aðila á ýmsum fagsviðum sem og miðlun sálfélagslegra viðfangsefna fyrir börn og unglinga.

Námsefnið var einnig þróað í samstarfi við Barnaheill og fleiri fagfélög í Noregi sem hafa sérþekkingu á þroska barna, ofbeldi, kynferðislegri misnotkun, einelti og aldursmiðaðri fræðslu.

Menntamálastofnun þýddi og staðfærði “Ég veit“ í samstarfi við Barna- og fjölskyldustofu og Barnaheill á Íslandi og byrjað var á fyrstu tveimur aldurshópunum, það er leikskóla og yngsta stigi grunnskóla. Stefnt er að því að ljúka við að þýða námsefnið fyrir öll aldursstig fyrir lok árs 2025 og mun það birtast á vefnum smám saman ásamt kennsluleiðbeiningum og ítarefni.

„Ég veit“ hentar sem námsefni til að fræða börn og unglinga um:

  • líkama, tilfinningar og mörk

  • öryggi, inngildingu og vináttu í leik- og grunnskóla

  • ýmsar birtingarmyndir líkamlegs, andlegs og stafræns eineltis, áreitni, ofbeldis og kynferðisbrota

  • rétt barna á öruggu leik- og skólaumhverfi og vernd gegn ofbeldi og kynferðisbrotum

  • ákvæði í lögum um einelti, áreitni, ofbeldi og kynferðisbrot

  • hvernig börn geta fengið hjálp og stuðning ef þau verða fyrir einelti, áreitni, ofbeldi eða kynferðisbrotum, eða eru sjálf gerendur í slíku

Hvers vegna er mikilvægt að börn fái fræðslu um kynferðisbrot og einelti?

Mörg börn og ungmenni verða fyrir einelti, ofbeldi eða kynferðislegri misnotkun á uppvaxtarárum sínum. Norskar rannsóknir sýna 1 af hverjum 5 verður fyrir kynferðisofbeldi, 1 af hverjum 10 verður fyrir alvarlegu ofbeldi af hendi foreldris og 1 af hverjum 5 verður fyrir einelti fyrir 18 ára aldur. Íslensk æskulýðsrannsókin Menntavísindasviðs frá 2023 sýnir að staðan á Íslandi er er ekki ólík því sem þar kemur fram. Það er því mjög líklegt að börn eða ungmenni sem hafa slíka reynslu sé að finna í hverri einustu kennslustofu. Erfið reynsla í æsku getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir þroska barna, heilsu þeirra og lífsgæði og haft áhrif á nám og námsgetu. Börn eiga rétt á að fá fræðslu um réttindi sín og vernd fyrir hvers kyns ofbeldi. Skólar og leikskólar þurfa að kenna félags- og tilfinningafærni á markvissan máta og tryggja að brugðist sé tafarlaust við ofbeldi svo að öll börn búi við öryggi í leikskóla- og skólaumhverfi. Barnasáttmálinn kveður á um að öll börn eigi rétt á vernd gegn ofbeldi og að stjórnvöldum beri skylda til að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að vernda börn gegn ofbeldi, þar á meðal á sviði fræðslu. „Ég veit“ er ætlað að auka þekkingu barna á ofbeldi, mikilvægi þess að beita ekki ofbeldi og að leita sér aðstoðar þegar þau þurfa á því að halda.

Aukin þekking fullorðinna á einkennum og réttum viðbrögðum eykur líkur á að hægt sé að stöðva ofbeldi og minnka skaðann sem af því getur orðið.

Getur verið skaðlegt fyrir börn að fræðast um ofbeldi og kynferðisbrot?

Rannsóknir sýna að fræðsla um einelti, ofbeldi og kynferðisbrot getur haft fyrirbyggjandi áhrif, fært börnum aukna þekkingu á málefninu og aukið færni þeirra og getu til að verja sig. Rannsóknir frá Noregi hafa ekki leitt í ljós nein neikvæð áhrif af fræðslu um ofbeldi og kynferðisbrot. Skýrslu um það málefni má nálgast hér. Óháða rannsóknarstofnunin FAFO í Noregi framkvæmdi rannsókn á námsefninu „Ég veit“ á tímabilinu 2019–2022 að beiðni barna- og fjölskyldustofu í Noregi (eða Bufdir). Gerð var víðtæk könnun meðal starfsfólks í leik- og grunnskólum í því skyni að kortleggja reynsluna af notkun námsefnisins. Niðurstöðurnar sýna að mikill meirihluti þeirra sem hafa notað „Ég veit“ telur að námsefnið leiði til fleiri og innihaldsríkari umræðna við börn og nemendur um einelti, ofbeldi og kynferðisbrot. Svarendur tóku einnig fram að námsefnið hentaði vel og ætti vel við til notkunar í kennslu. Þau sem hafa notað „Ég veit“ telja einnig að námsefnið færi þeim aukið öryggi í kennslu. Nánari upplýsingar um rannsóknarverkefnið má finna hér.

„Ég veit“ byggist á ábendingum frá börnum og ungmennum. Þær ábendingar sýna að þau vilja fræðslu um einelti, ofbeldi og kynferðisbrot og að þau vilja slíka fræðslu frá fullorðnum sem þau þekkja og treysta. Miðlun námsefnisins „Ég veit“ ætti alltaf að vera í höndum starfsfólks leikskóla og grunnskóla sem þekkir barna- og nemendahópinn vel og getur sniðið fræðsluna að hópnum hverju sinni, lagað efnið að aðstæðum, útskýrt það og skapað öruggan ramma um fræðsluna. Teiknimyndir, ljósmyndir og textar eru sett fram þannig að efnið veki ekki ótta, heldur opni jákvæða og örugga leið að viðfangsefnunum. Í kynningu á hverju viðfangsefni skal leggja áherslu á undirstöðuþekkingu um líkamann og tilfinningar, góð og heilbrigð sambönd og rétt allra til að líða vel og vera örugg.

Barna- og fjölskyldustofa metur sem svo að í leikskólum eigi fræðslan að fara fram í hópi elstu barna eða skólahópa en kennarar meta alltaf hvort efnið á erindi við sinn nemendahóp.