Skip to main content

HVERNIG Á AÐ NOTA „ÉG VEIT“ Í LEIKSKÓLUM OG SKÓLUM?

Á „Ég veit“ vefnum er að finna fjölbreytt námsefni og teiknimyndir sem skapa grundvöll fyrir vangaveltur og umræður. Efnið er flokkað eftir viðfangsefnum og allt námsefnið inniheldur tillögur að verkefnum til að fylgja námsefninu eftir og vinna úr því. „Ég veit“ er m.a. ætlað til að kennarar  geti stýrt umræðum í leikskólanum og kennslu í grunnskólum. Frekari upplýsingar um vefinn og viðfangsefnin sem námsefnið nær yfir er að finna hér.

Aðalnámskrá og kennsluleiðbeiningar

Námsefnið á vefnum „Ég veit“ er sniðið að aðalnámskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla. Það styður við hæfniviðmið, grunnþætti og lykilhæfni sem þar koma fram og má sjá tengingu í hæfniviðmið undir hverjum hluta efnisins og aldurstigi. Efnið sem tengist grunnskólum hentar fyrir þverfaglega vinnu í lýðheilsu og lífsleikni og styður við hæfniviðmið í íslensku, samfélagsgreinum, náttúrufræðigreinum og trúarbragða- og siðfræði. Efnið sem tengist leikskólum hentar fyrir vinnu í lýðheilsu og lífsleikni, samskiptum og málþroska, vináttu og samheldni. Námsefnið hentar einnig til notkunar í vinnu að því að tryggja öruggt leikskóla- og fræðsluumhverfi. Á öllum skólastigum er stefnt að því að nemendur  átti sig á hvað felst í einelti, ofbeldi og kynferðisbrotum, réttindum, reglum og mörkum. Að auki styður „Ég veit“ vinnu við málþroska og málskilning, þar sem nemendur læra að færa eigin reynslu, hugsanir og tilfinningar í orð og taka þátt í samtali við aðra með virkri hlustun og þátttöku. Ítarlegt yfirlit yfir veigamestu liðina í kennslunni má finna í kennsluleiðbeiningum um hvern efnisþátt og aldursstig.

Undirbúningur

Það sem þarf að hafa í huga við notkun á „Ég veit“

Áður en þú notar „Ég veit“ mælum við með því að þú kynnir þér námsefnið sem ætlað er þeim aldurshóp sem þú kennir. Gott er að fara vel yfir viðfangsefnin, teiknimyndirnar og verkefnin sem fylgja þeim. Fyrir elstu börn í leikskóla, 1.–4. bekk og 5.–7. bekk eru einnig verkefnablöð (blöð til að teikna og lita og ýmis önnur verkefni)sem henta vel í lok kennslustundar.

Hugleiddu með hvaða hætti þú þarft að sníða námsefnið að þínum barnahóp/nemendahóp:

Er eitthvert viðfangsefni sem hefur sérstakt vægi fyrir þinn barnahóp eða þinn bekk einmitt núna?

Gerið ráð fyrir að einhver börn í hópnum eigi erfiða reynslu að baki.

Ef þú veist hvaða barn um ræðir getur verið gott að ræða við barnið fyrst og laga því næst efnið á vefnum „Ég veit“ að þörfum þess. Ef þú ert með barn í leik- eða grunnskólanum þínum sem þú hefur áhyggjur af geturðu lesið þér til hér.