Skip to main content

HEFUR ÞÚ ÁHYGGJUR AF BARNI?

Ef þú hefur áhyggjur af barni ber þér sem starfsmanni í leik- eða grunnskóla skylda til að fylgja málinu eftir.

Börn og ungmenni eiga rétt á öruggu og góðu skólaumhverfi sem stuðlar að heilbrigði, vellíðan og færni. Leik- og grunnskólum ber að koma í veg fyrir og grípa inn í ef börn eða nemendur verða fyrir brotum eins og einelti, ofbeldi, mismunun eða áreitni.

Tilkynningarskylda samkvæmt barnaverndarlögum

Almenningi ber skylda til að tilkynna til barnaverndarþjónustu ef þau telja eitthvað vera að aðbúnaði barns, samkvæmt 16 gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Samkvæmt 17. gr. sömu laga ber einnig öllum sem starfa með börnum skylda til að tilkynna til barnaverndarþjónustu þegar grunur vaknar um að barn verði fyrir endurteknum brotum í daglegri umönnun eða annarri alvarlegri vanrækslu:

16 gr. Tilkynningarskylda almennings.

Öllum er skylt að tilkynna til barnaverndarþjónustu ef þeir hafa ástæðu til að ætla að barn:

a. búi við óviðunandi uppeldisaðstæður,
b. verði fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða
c. stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.

Sá sem hefur tilkynningarskyldu þarf ekki að vera viss um að barnið sé í aðstæðum eins og lýst er í 16. eða 17 gr. barnaverndarlaga en verður þó að geta bent á merkjanlega og alvarlega annmarka á umönnunaraðstæðum barnsins eða tiltekin atriði sem benda til þess að barnið eigi við alvarlega hegðunarerfiðleika að stríða. Tilkynningarskylda samkvæmt barnaverndarlögum gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.

Þú getur haft samráð við barnaverndaryfirvöld

Ef þú vilt fá ráðleggingar um hvort þú eigir að tilkynna mál getur þú haft samband við barnaverndarþjónustu í sveitarfélagi barnsins og rætt málið án þess að tilgreina hvert barnið er. Frekari upplýsingar um tilkynningaskyldu og samstarf við barnaverndaryfirvöld má finna hér:

Verklagsreglur um tilkynningaskyldu starfsmanna leik- grunn og framhaldsskóla til barnaverndar

Ef þú vilt vita meira um hvað vanræksla er og hvernig þú getur hjálpað börnum sem búa við erfiðar heimilisaðstæður geturðu lesið meira á vefsvæði Barna- og fjölskyldustofu.

Öruggt leik- og skólaumhverfi

Öllum skólum ber skylda til að fylgjast með og grípa inn í ef börn verða fyrir brotum eins og einelti, ofbeldi, mismunun eða áreitni. Á vef Menntamálastofnunar  er að finna upplýsingar um hvernig vinna má með öruggt námsumhverfi í skólum og leikskólum.

Handbók um öryggi og velferð barna í leikskólum.

Handbók um öryggi og velferð barna í grunnskólum.

Forvarnir

Þegar um er að ræða ákveðnar tegundir ofbeldis og kynferðisbrota ber okkur einnig lögbundin skylda til að reyna að koma í veg fyrir allt ofbeldi. Þessi skylda á við í þeim tilvikum þar sem þú færð vitneskju um að tiltekið atvik muni eiga sér stað, eða miklar líkur séu á að það eigi sér stað.

Í handbókinni Ofbeldi gegn börnum – hlutverk skóla í kafla 6 er fjallað um forvarnir gegn ofbeldi. Einnig er fræðsluefni fyrir öll skólastig er tengist ofbeldi og áreiti inn á vefnum Stopp ofbeldi! á vef Menntamálastofnunar.

Viltu vita meira um þá aðstoð sem er í boði fyrir jaðarsett börn og fjölskyldur þeirra?

Að vera aðstandandi einhvers sem býr við eða hefur orðið fyrir ofbeldi fylgja margs konar áskoranir og álag og bæði þolendur og aðstandendur þeirra geta þurft stuðning og hjálp. Ýmis úrræði eru til staðar,  bæði hjá heilsugæslu í nærumhverfi og sérhæfðri heilsugæslu, hjá sjálfboðaliðasamtökum og öðrum aðilum. Á vef 112.is er hægt að finna úrræði fyrir börn.

Að ræða við og fræða börn um ofbeldi

Ef þú vilt auka þekkingu þína á því hvernig á að tala við börn og ungmenni um erfið málefni, og hvernig á að fylgja eftir samtölum, bendum við hér fyrir neðan á námsefni sem gæti nýst í vinnu með efnið.  Þetta efni er ætlað öllum sem starfa með börnum og ungmennum, t.d. í leikskólum, grunnskólum, í heilsugæslu, í tómstundastarfi o.s.frv.

Stopp ofbeldi!

Kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni á hvergi að eiga sér stað.  Með forvörnum er leitast við að fyrirbyggja kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni og draga úr þeim skaða sem það getur haft í för með sér bæði til lengri og skemmri tíma. Á vefnum Stopp ofbeldi! er að finna hugmyndir að fræðsluefni fyrir börn, foreldra og starfsfólk um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni. Efnið er flokkað í fjóra flokka en það fer þó fyrst og fremst eftir hópnum hvaða efni hentar hverju sinni:

  • leikskóla og yngstu stig grunnskóla

  • miðstig

  • unglingastig

  • starfsbrautir

  • framhaldsskóla

Ofbeldi gegn börnum – hlutverk skóla

Um er að ræða rafbók sem upplýsir kennara og annað starfsfólk skóla um einkenni og áhrif ofbeldis á börn og að vekur athygli á forvörnum, inngripum og úrræðum sem eru til staðar til að tryggja sem best velferð nemenda. Kafli 8 fjallar um það hvað þarf að hafa í huga þegar rætt er við börn sem orðið hafa fyrir ofbeldi.  Ef nemandi gefur til kynna að hann búi við einhvers konar ofbeldi er brýnt að kennarinn haldi ró sinni, forðist að kveða upp dóm, láti barnið vita að það fái hjálp og eftir atvikum að þetta verði rætt betur um leið og færi gefst. Ef um er að ræða grun um ofbeldi, kynferðislegt eða líkamlegt, er mikilvægt að ræða ekki við barnið um það heldur hafa strax samband við barnaverndarþjónustuna. Það er síðan hlutverk barnaverndarstarfsmanna að kanna málið og ræða við barnið eftir þeim reglum sem um það gilda. Sjá nánar í verklagsreglum.

Hlutverk kennara er fyrst og fremst að hlusta á nemandann og gefa honum upplýsingar en ekki að rannsaka málið. Það verkefni er á höndum barnaverndarþjónustunnar.

112.is – Velferð barna

Á vef Neyðarlínunnar, 112.is, er fjallað um að öll börn eiga rétt á vernd gegn ofbeldi. Það er á ábyrgð fullorðinna að passa upp á það. Ef þú veist eða hefur grun um að barn sé beitt ofbeldi áttu að tilkynna það til barnaverndarþjónustu. Sjá nánar um í skilgreiningar-og flokkunarkerfi á ofbeldi hjá barnavernd.

Góð samskipti og fræðsla er góð undirstaða til að fyrirbyggja ofbeldi og stoppa það eins fljótt og hægt er. Fjallað er um hver eru einkenni sem  barn sýnir sem býr við ofbeldi, vanrækslu eða er að stunda áhættuhegðun. Einnig er þar gott yfirlit yfir úrræði sem standa til boða sérstaklega fyrir börn.

Hér má sjá fleiri úrræði

Efni fyrir börnin sjálf

Netnámskeið Barnahúss um einkenni kynferðisofbeldis og viðbrögð

Sérfræðingar Barnahúss hafa útbúið netnámskeið með grunnfræðslu um kynferðislegt og kynbundið ofbeldi og áreitni. Námskeiðið fjallar um einkenni barna sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og hvernig bregðast skuli við ef barn greinir frá ofbeldi. Námskeiðið er í fjórum útgáfum með eftirfarandi markhópa í huga:

  • Fyrir þau sem starfa með 2 – 6 ára börnum

  • Fyrir þau sem starfa með 6 – 12 ára börnum

  • Fyrir þau sem starfa með 12 – 16 ára unglingum

  • Fyrir þau sem starfa með 16 – 18 ára unglingum

Námskeiðið er hannað með þeim hætti að stjórnendur geti fylgst með að starfsfólk hafi lokið námskeiðinu en við lok námskeiðs fá þátttakendur viðurkenningarskjal sem ætlað er til upplýsinga fyrirs tjórnendur. Barna- og fjölskyldustofa fær sjálfkrafa upplýsingar um heildarfjölda þeirra sem taka námskeiðið.

Um netnámskeiðin

Netnámskeið fyrir öll  skólastig