TIL FORELDRA OG FORSJÁRAÐILA
Allir leik- og grunnskólar þurf að vinna að því að koma í veg fyrir að einelti, ofbeldi og kynferðisbrot eigi sér stað og að tryggja að öll börn búi við öruggt og gott leik- og grunnskólaumhverfi. Kveðið er á um þetta í Barnasáttmálanum, grunnskólalögum, aðalnámskrá leikskóla og aðalnámskrá fyrir grunnskóla.
Í lögum um leikskóla, nr. 90/2008, segir í 2. gr.: „Í leikskólum skal velferð og hagur barna hafður að leiðarljósi í öllu starfi. Veita skal börnum umönnun og menntun, búa þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði.“
Í Handbók um velferð og öryggi barna í leikskólum, sem unnin var í samvinnu mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga með hliðsjón af lögum um leikskóla, segir: „Í lögum og reglugerðum er ekki kveðið á um skyldur leikskóla til að gera sér stefnu um aðgerðir gegn einelti. Andi laga um leikskóla og aðalnámskrá leikskóla eru þó hvatning til að leikskólar setji sér stefnu til að koma í veg fyrir og bregðast við líkamlegu, andlegu og félagslegu ofbeldi og félagslegri einangrun. Leikskólar geta nýtt sér þær tillögur sem fram koma í kaflanum hér að neðan um grunnskólann.“
Í grunnskólalögum, nr. 91/2008, er kveðið á um samráð skólastjóra og kennara við foreldra um hegðun, líðan og samskipti. Samkvæmt 30. gr. laganna er skólum gert að marka sér heildstæða stefnu um hvernig fyrirbyggja eigi að líkamlegt, andlegt eða félagslegt ofbeldi eigi sér stað í skólakerfinu. Í reglugerð nr. 1040/2011, um ábyrgð og skyldur aðila skólasamfélagsins í grunnskólum, er kveðið á um ábyrgð starfsfólks skóla á velferð nemenda. Í 4. gr. reglugerðarinnar er tilgreind ábyrgð nemenda á eigin hegðun, háttsemi og samskiptum og í 5. gr. er tilgreind samábyrgð foreldra á hegðun og framkomu barna sinna. Í 7. gr. er fjallað um starf grunnskóla gegn einelti þar sem m.a. er tilgreint að skólar skuli setja sér heildstæða stefnu og aðgerðaáætlun gegn einelti og að kanna beri reglulega eðli og umfang eineltis í skólum, kynna niðurstöður og nýta þær til úrbóta.
Öll börn og ungmenni eiga rétt á aldursmiðaðri fræðslu um einelti, ofbeldi og kynferðisbrot, sem og um réttindi barna og um það hvernig börn geta fengið aðstoð og stuðning ef brotið er á þeim. „Ég veit“ er ætlað að styðja kennara í leik- og grunnskóla í fræðslu um þessi viðfangsefni. Námsefnið „Ég veit“ inniheldur verkefni og teiknimyndir sem veitir börnum og ungmennum fræðslu og þekkingu og skapar rými fyrir umræður og vangaveltur?
Þegar leik- og grunnskólar nota verkefnin í „Ég veit“ er umræðunum stýrt af kennara sem getur leitt samtalið, skýrt vafaatriði og búið í haginn fyrir sinn barnahóp eða bekk. Kennarinn ber ábyrgð á að laga námsefnið að þörfum barnanna og tryggir að allir nemendur fái áheyrn og athygli. Námsefnið býður upp á bæði umræður og hugleiðingar um viðfangsefnin. Markmið fræðslunnar er ekki að kennarar noti „Ég veit“ til að útskýra eða kortleggja nákvæmlega einelti, ofbeldi eða kynferðisbrot. Námsefnið er ætlað til að fræða og auka líkur á að börn komi auga á ofbeldi og geti sagt frá, í samræmi við réttindi þeirra og ákvæði Barnasáttmálans.
Getur verið skaðlegt fyrir börn að fræðast um ofbeldi og kynferðisbrot?
Rannsóknir sýna að fræðsla um einelti, ofbeldi og kynferðisbrot getur haft fyrirbyggjandi áhrif, fært börnum aukna þekkingu á málefninu og aukið færni þeirra og getu til að verja sig. Rannsóknir hafa ekki leitt í ljós nein neikvæð áhrif af fræðslu um ofbeldi og kynferðisbrot. Skýrsluna má nálgast hér. Óháða rannsóknarstofnunin FAFO framkvæmdi rannsókn á námsefninu „Ég veit“ á tímabilinu 2019–2022, að beiðni barna- og fjölskyldustofu í Noregi (Bufdir). Gerð var víðtæk könnun meðal starfsfólks í leik- og grunnskólum í því skyni að kortleggja reynsluna af notkun námsefnisins. Niðurstöðurnar sýna að mikill meirihluti þeirra kennara sem hafa notað „Ég veit“ telur að námsefnið leiði til fleiri og innihaldsríkari umræðna við börn og nemendur um einelti, ofbeldi og kynferðisbrot. Svarendur tóku einnig fram að námsefnið hentaði vel og ætti vel við til notkunar í kennslu. Þau sem hafa notað „Ég veit“ telja einnig að námsefnið færi þeim aukið öryggi í kennslu. Nánari upplýsingar um rannsóknarverkefnið má finna hér.
„Ég veit“ byggist á ábendingum frá börnum og ungmennum – og þær ábendingar sýna að þau vilja fræðslu um einelti, ofbeldi og kynferðisbrot og að þau vilja fá slíka fræðslu frá fullorðnum sem þau þekkja og treysta. Kennsla á námsefninu „Ég veit“ ætti alltaf að vera í höndum kennara í leikskóla og grunnskóla sem þekkir barna- og nemendahópinn vel og getur sniðið fræðsluna að hópnum hverju sinni, lagað efnið að aðstæðum, útskýrt það og skapað öruggan ramma um fræðsluna. Teiknimyndir, ljósmyndir og textar eru sett fram þannig að efnið veki ekki ótta, heldur opni jákvæða og örugga leið að viðfangsefnunum. Í kynningu á hverju viðfangsefni skal leggja áherslu á undirstöðuþekkingu um líkamann og tilfinningar, góð og heilbrigð sambönd og rétt allra til að líða vel og vera örugg.
Ábendingar:
Þegar leikskóli eða grunnskóli þíns barns ætlar að nota vefinn „Ég veit“ er gott að þú ræðir við þitt barn um viðfangsefnin í námsefninu. Það er mikilvægt að barnið skynji að því er óhætt að tala um einelti, ofbeldi og kynferðisbrot og að það viti að það getur leitað til fullorðinna til að eiga það samtal. Þetta á við um börn og ungmenni á öllum aldursstigum. Við hvetjum þig til að skoða „Ég veit“ og smella á mismunandi viðfangsefni til að kynna þér þau nánar. Vefsvæðið er góður byrjunarreitur fyrir samtal við barnið þitt og það getur verið mjög lærdómsríkt að hugleiða viðfangsefnin saman. Hér má lesa meira um námsefnið „Ég veit“, hvaða reynslu kennarar sem hafa notað „Ég veit“ hafa af því og hvers vegna forvarnarstarf er mikilvægt.